Ástralskur Silky Terrier

Stutt kynning

Silky terrier er ekki kjölturakki en hann elskar knús og klór. Hann vill ekki mikið láta halda á sér heldur vill hann kanna heiminn upp á eigin spýtur. Hann er með terrier eðlið í sér og er þar af leiðandi bráðgáfaður og þarf mikla athygli. Hann fylgist mjög vel með öllu og því fara ókunn hljóð eða hreyfing ekki framhjá honum sem gerir hann að frábærum varðhundi.

Silky terrier er stór hundur í litlum líkama og er karakterinn eftir því. Hver hefur þó sinn eiginn persónuleika en í heildina litið þá á eftirfarandi við um silky terrierinn: mjög orkumikill hundur, mjög góður varðhundur þó ekki endilega geltinn, mjög gáfaður en oft þrjóskur og sjálfstæður, finnur sér alltaf eitthvað að gera og er mjög fljótur að læra. Það gerir það að verkum að hann verður fljótt leiður á æfingum séu þær endurteknar of oft því þá finnst honum tilgangurinn enginn. Hann vill áskorun og þurfa að hafa fyrir hlutunum. Þar af leiðandi á hann til að hlýða ekki alltaf. Hann þarf mikinn aga og staðfestu.

Askur. Eigandi Alda Gyða Úlfarsdóttir, Askur varð BOB BIG og BIS 3 á seinastu sýningu HRFÍ
Askur – eigandi Alda Gyða Úlfarsdóttir, Askur varð BOB BIG og BIS 3 á seinastu sýningu HRFÍ

Uppruni

Ástralskur Silky Terrier á, eins og nafnið gefur til kynna, rætur sínar að rekja til Ástralíu þar sem hann var mjög vinsæll í Sidney og svæðum þar í kring. Í rauninni var tegundin það vinsæl að í fyrstu var hún kölluð Sidney Silky.  
Tegundin þróaðist út frá Ástralska Terriernum og Yorkshire Terriernum seint á 18. öld og var í upphafi ræktuð til þess að vera gæludýr. Terrier eðlið var þó svo mikið í Silkunum að fljótlega urðu þeir þekktir fyrir að veiða og drepa snáka. 
Allt til ársins 1929 var erfitt að sjá mun á Áströlskum Terrier, Yorkshire Terrier og Silky Terrier. Í einu og sama gotinu mátti fá hvolpa sem líktust öllum tegundunum og voru hvolparnir þá sagðir af þeirri tegund sem þeir þóttu líkastir. Árið 1932 fór minna að bera á þesskonar gotum og tegundirnar aðskildu sig. Það var svo árið 1958 að Ástralir viðurkenndu hunda af tegundinni Silky Terrier. 
Eftir seinni heimstyrjöldina fór að bera meira á tegundinni, ljósmyndir af þeim birtust í fréttablöðum og bandarískir hermenn snéru heim frá Ástralíu með nokkra hunda. Í kjölfarið varð tegundin vinsælli og kennel klúbbarnir viðurkenndu hana hver á fætur öðrum. FCI skráði tegundina hjá sér á svipuðum tíma og breski kennel klúbburinn en tegundin er skráð sem tegund númer 236. Hér á landi tilheyrir Silky Terrierinn tegundahópi 3 en vegna smæðar sinnar hafa sumir kosið að setja hann á meðal annara smáhunda í hina svokölluðu Toy Group.

Betsy. Eigandi Birgitta Rós Laxdal
Betsy – eigandi Birgitta Rós Laxdal

Útlit

Silky Terrierinn er lítill hundur. Þeir eru um 23-26 cm að herðakampi og vega um 4-5 kg en rakkarnir oftast stærri en tíkurnar. Búkurinn ætti að vera lengri en hæðin og kroppurinn sterkbyggður. Í upphafi var þessi tegund notuð til þess að veiða meindýr á borð við rottur og snáka og því er ætlast til þess að líkaminn sé kraftmikill.
Höfuð Silkans er fleyglaga og augun lítil, dökk og möndlulaga. Eyrun ættu að vera lítil, V-laga og sitja hátt á kollinum. Silky Terrier er með hátt sett skott og oft er gerð krafa á skottstýfingu. Sé hundurinn ekki skottstýfður ættu fyrstu þrír skottliðirnir að vísa beint upp eða vera örlítið bognir en skottið á þó ekki að vera hringlaga. Framfæturnir eiga að vera litlir og beinir.

Eitt að aðaleinkennum Silkans er feldurinn og ætti hann að verða síður en ekki það síður að hundurinn dragi feldinn eftir jörðinni. Litur feldins er allt frá járngráu til silfurgrás en brúnn á andliti, fótum og eyrum og kollurinn ljósbrúnn.

 

Emil 9 ára á harðahlaupum - Eigandi Þorsteinn Kristinsson
Emil 9 ára á harðahlaupum – eigandi Þorsteinn Kristinsson

Feldhirða

Silky Terrier fer ekki úr hárum og þarf töluverða feldhirðu. Feldurinn ætti að vera sléttur gljáandi og síður. Honum er skipt til miðju eftir hryggnum og látin liggja niður með hliðum hundsins. Sumir Silkar hafa ullarkenndan feld og hættir því til að flækjast meira. Ef hundurinn er burstaður daglega tekur feldhirðan ekki nema nokkrar mínútur en getur tekið lengri tíma sé feldurinn mikið flæktur.

Baða þarf Silky Terrierinn reglulega og skola úr pissusvæðum eftir þörfum. Silkinn er baðaður við 35-38°c og best er að nota sérstök hundsjampó og næringu.

Til að halda feldinum flókalausum er notast við bursta, kamp og stálgreiður. Stálgreiðan á það þó til að slíta feldinn og er hún því aðeins notuð á mesta flókann, burstin ætti að taka flest annað. Að lokum er greitt yfir feldinn með kampnum. Sé hundurinn greiddur daglega ætti feldhirðan ekki að taka langan tíma en hafa skal í huga að feldurinn er aldrei greiddur nema að hann sé rakur, annars er hætta á að reita feldinn. Gott er að spreyja vatni á feldinn og enn betra að blanda örlítilli næringu út í vatnið.

Elena Mist og Nói að keppa saman í ungum sýnendum.
Nói og Elena Mist að keppa saman í ungum sýnendum.

Eðlisfar

Að eðlisfari er Silky Terrierinn vökull, klár og kátur hundur. Hann þarf hreyfingu og afgirtur garður er kostur en Silky Terrierinn sómar sér einnig vel í íbúðum. Þeim finnst gaman að hlaupa og una sér vel í allskonar leikjum. 
Silky Terrierinn getur tekið upp á því að skemma hluti eða gera eitthvað af sér ef honum leiðist. Til að koma í veg fyrir að hundunum leiðist þarf að halda þeim félagsskap og passa upp á að þeir hafi nóg fyrir stafni. Þrautaleikir, þroskaleikföng fyrir hunda og lausahlaup er tilvalin dægradvöl fyrir Silkann. Þó svo að Silky Terrierinn vilji hafa nóg fyrir stafni er hann mikið kúrudýr. Hann fúlsar ekki við sjónvarpskúri og veit fátt betra en að eyða tíma með eiganda sínum. Silkinn er frábær heimilishundur og hentar vel fjölskyldum með börn, sérstaklega ef börnin eru til í að leika, kasta bolta eða hlaupa um út í garði.
Eins og flestir Terrierar hefur Silkinn mikið varðeðli. Ókunnug hljóð eða óvænt hreyfing fer ekki fram hjá honum og því eru þeir frábærir vakthundar en ekki endilega geltnir.

 

Tara eftir fyrsta hundafimimótið sitt.
Tara eftir fyrsta hundafimimótið sitt – eigandi Maríanna Magnúsdóttir.

Hreyfiþörf

Silky Terrier hundar læra það sem fyrir þeim er haft. Sé eigandinn fjallgöngumaður þá getur hundurinn fylgt honum eftir án þess að blása úr nös en kjósi eigandinn rólegri göngutúra venst hundurinn á það. Hundarnir sjá til þess að þeir fái sína hreyfingu með ærslagangi innandyra eða úti í garði. Þeir eru sjaldan kyrrir og því er betra að fylgjast með öllu lauslegu. Þó þeir séu smáir fara þeir létt með að henda hlutum um koll enda miklir ærslabelgir. Hundar af þessu kyni hreinlega elska að elta mýs, kanínur, íkorna, snáka og ketti. Það borgar sig því ekki að skilja þá eftir eftirlitslausa út í garði.

Þeir eru orkumiklir og geta hlaupið í upp undir tvær klukkustundir án þess að finna fyrir því. Þeir gefa stærri hundum ekkert eftir þegar kemur að hlaupum og kraftgöngum. Tegundinni gengur mjög vel í hundafimi og flugbolta enda snöggir og fimir hundar sem auðvelt er að kenna nýja hluti.

Fizo var fyrsta dýrið í Ástralíu til að hljóta fjólubláa krossinn fyrir hetjudáð.
Fizo var fyrsta dýrið í Ástralíu til að hljóta fjólubláa krossinn fyrir hetjudáð.

Hugrekki

Stór hundur í litlum umbúðum er eflaust hægt að segja um marga terrier hunda en það er ef til vill besta leiðin til að lýsa hinum ástralska Silky Terrier. Þessir smáu hundar eru ef til vill ekki háir í loftinu en hugrekki hundana á sér engin takmörk. Hinn 8 ára gamli Fizo er eflaust besta dæmið um hugekki þeirra. Fizo stökk niður af svölum til þess að bjarga 11 ára eiganda sínum og félögum stúlkunnar frá baneitraðri slöngu er hugðist ráðast á börnin. Hundurinn fór á milli barnanna og slöngunnar, réðst á hana og hætti ekki fyrr en hún lá dauð á jörðinni. Í slagsmálunum hafði Fizo hlotið nokkur bitsár og eitur slöngunnar tók fljótt sinn toll. Það varð honum til lífs að dýralæknirinn var stutt frá og þar fékk hann móteitur.

Í kjölfari hetudáða sinna var Fizo sæmdur fjólubláa krossinum en krossin hljóta dýr sem sýna af sér mikið hugrekki og koma fólki til bjargar.

Prins. Eigandi Haukur Magnússon
Prins – eigandi Haukur Magnússon

Ekki fyrir alla

Silky Terrier er ekki tegund fyrir hvern sem er. Þetta eru terrier hundar með ríkt terrier eðli. Þeir þurfa aga og hreyfingu. Feldurinn þarf einnig mikla athygli. Silkinn getur einnig verið þrjóskur en þrátt fyrir það vill hann ekkert annað en að sjá eigendur sína glaða. Þó að þessir litlu loðboltar séu sjálfsöruggir og ákveðnir eru þeir yndislegir. Þeir fylla eigendur sína gleði og stolti. Þeir eru fallegir, skemmtilegir og gáfaðir hundar. Það vita eigendur hunda af þessari tegund að ef þú átt Silka þá er ekki tími til að láta sér leiðast því þessir hundar leggja sig fram við að halda eigandanum kátum.