Útlit

Miðlungsstór og glæsilegur veiðihundur með stuttan gullinbrúnan feld. Rakkar eru 58-64 cm og tíkur 54-60 cm. Ungversk Vizla kemur í tveimur feldafbrigðum, snögghærðir og stríhærðir.

Umhirða

Vizlur eru tiltölulega auðveldar í umhirðu. Stríhærða afbrigðið þarf þó að reita og bursta öðru hvoru, sérstaklega skegg og augabrúnir.

Saga

Vizlan var upphaflega veiðihundur hirðingjanna ,,Magyar“ en tegundin er aldagömul og má finna elstu rituðu lýsingu á forfeðrum kynsins sem vitað er um í ,,Illustrated Vienna Cronicle“ frá árinu 1357. Þessir hundar voru veiðihundar sem blönduðust við hunda á svæðinu þar sem nú er Ungverjaland. Flestir eru sammála um að Transylvanian Hound og Tuskish Yellow dog, sem nú eru útdauðir, séu meðal forfeðra Vizlunnar. Seinna voru svo fleiri standandi fuglahundum blandað í tegundina. Eftir seinni heimstyrjöldina var Vizlan næstum útdauð í heimalandinu en það tókst að bjarga kyninu sem nú nýtur sífelt meiri vinsælda. Stríhærða afbrigðið varð svo til þegar Vizlunni var blandað við stríhærðann Vorsteh um 1930.

Eiginleikar

Í dag er tegundin mest notuð sem standandi fuglahundur en að auki eru Vizlurnar duglegar að sækja á bæði vatni og landi. Þetta er fjölhæfur veiðihundur sem einnig er hægt að nota við veiðar á villtum smádýrum og leit. Hundarnir eru félagslyndir og bindast eiganda sínum hratt. Þegar þeir eru lausir úti gætu þeir horfið úr augnsýn en yfirleitt ekki lengi. Þeim líkar að bera hluti í munninum og sumir hafa sérstakan máta á að heilsa en þá setja þeir munninn varlega um höndina þína.
Kenndu hundinum að sækja og eyddu tíma í ólík verkefni þar sem hundurinn fær að nota nefið sitt.

Heilsa

Almennt hraust tegund en það geta komið tilfelli af hundum sem fá mjaðmalos og húðvandamál.