Útlit

Miðlungsstór hundur með upprétt eyru, hringað skott og æskilegt er að hann sé tvíspora. Rakkar eru um 46 cm og tíkur 42 cm á herðabak. Íslenski Fjárhundurinn kemur í tveimur feldgerðum, snöggur og loðinn. Litir geta verið með ýmsu móti, en skal einn aðallitur þó vera ríkjandi.

Umhirða

Íslenski Fjárhundurinn er tiltölulega einfaldur í umhirðu. Bursta þarf yfir feldinn einu sinni í viku, kannski oftar yfir hárlostímabil. Baðað eftir þörfum.

IMG_8934

Saga

Íslenski Fjárhundurinn er gamalt hundakyn sem kom fyrst til Íslands með norrænum víkingum á landnámsöld. Þeir komu frá nágrannalöndunum, fyrst og fremst Noregi en þeir líkjast nokkuð öðrum norðlenskum spísshundategundum. Hundarnir hjálpuðu við gæslu og smölun húsdýra. Stofnsveiflur á tegundinni voru miklar í gegnum tíðina. Hann var mikils metinn á mörgum bæjum við að aðstoða með féð. Ásamt því að vera vinsæll til útflutnings á miðöldum, sérstaklega til Bretlands, bæði sem gæludýr yfirstéttafólks og sem fjárhundar fyrir bændur en hestverð gat fengist fyrir góðan hund. Árið 1869 voru sett lög um hundahald og árið 1871 var settu hár hundaskattur. Það var vegna þess að hundar hýstu egg bandorma sem olli sullaveiki í fólki og hafði sótt í sauðfé. Þá fækkaði hundum mikið og um 1950 var komið í ljós að hundarnir voru komnir í mikla útrýmingarhættu. Árið 1967 hóf Sigríður Pétursdóttir mikið ræktunarstarf á tegundinni í samstarfi við Pál A. Pálsson og Mark Watson sem þá hafði ræktað íslenska fjárhunda í Bretlandi. Hún fékk leyfi til að flytja inn tvo hvolpa frá Watson til Íslands en árið 1901 hafði verið sett algjört bann við innflutningi hunda. Þessir hvolpar voru kærkomin viðbót, enda hundarnir á landinu fáir og mjög skyldir. Árið 1969 var Hundaræktarfélag Íslands stofnað, en eitt af markmiðum þess er að rækta og vernda íslenska fjárhundinn. Vinsældir íslenska fjárhundsins hafa aukist á undanförnum árum og í dag er tegundin ekki lengur talin í útrýmingarhættu.

augl2

Eiginleikar

Tegundin er fjárhundur sem hefur það verkefni að smala inn og reka fé til og frá beitu ásamt því að vakta heimilið. Hundarnir áttu ekki að hræða burt þá sem komu að, heldur láta eiganda sinn vita með gelti þegar einhver kom. Íslenskir fjárhundar eru flinkir að finna fugla og vakta nýfædd lömb. Þetta eðli gerir það að verkum að margir hundar af kyninu finna auðveldlega á sér ef eitthvað liggur í loftinu og oft láta þeir þá vita með því að gelta.
Íslenski fjárhundurinn vinnur töluvert ólíkt Border Collie, sem vinnur náið með stjórnanda sínum, beygir sig niður, læðist áfram og starir á féð til þess að hreyfa það til. Íslenski fjárhundurinn notar allann kroppinn og geltið til þess að fá féð af stað og öryggið skín af honum. Í landslagi eins og á Íslandi þurfti tegundin að þróa með sér sveigjanleika, styrk og þolinmæði ásamt því að vinna sjálfstætt án merkja frá eigandanum.

Tegundin er fljót að læra og hentar til margs konar starfa en hérlendis hafa margir t.d. verið þjálfaðir til snjóflóða-, spora- og hlutaleitar með góðum árangri. Flestir eru þó í dag fyrst og fremst heimilishundar. Hundar af þessari tegund eru oft þekktir fyrir það að vera brosmildir, fjörlegir í fasi og vingjarnlegir.

Þar sem Íslenski fjárhundurinn hefur þurft að nota geltið töluvert í sínum verkefnum í gegnum tíðina getur enn í dag verið stutt í geltið.

Heilsa

Íslenski fjárhundurinn er almennt heilsuhraust tegund en þó finnast heilsufarsvandamál í tegundinni eins og mjaðmalos og augnsjúkdómar eins og karatakt. Meðalaldur er 13-14 ár.

IMG_7450

Áhugavert

Í janúar árið 2008 var Sigríður Pétursdóttir bóndi á Ólafsvöllum á Skeiðum, sæmd riddarakrossi fyrir störf að ræktun Íslenska fjárhundsins.