Púki
Púki

Uppruni Pug tegundarinnar er ekki mjög vel þekktur.
Þeir komu frá Asíu (mjög líklega Kína) en hvenær þeir urðu fyrst til er enn óvíst og verður líklega alltaf þannig. Hundum með “stutt trýni” er fyrst lýst í bókum sem skrifaðar voru árið 600 fyrir krist en það voru líklega forfeður tegundarinnar, þótt þeir hafi ekki litið út eins og Pug hundar samtímans.
Árið 950 eftir Krist skrifaði síðan kínverski keisarinn Kang His flettirit um allar kínversku hundategundirnar. Í því voru tvær tilvitnanir sem gætu hugsanlega lýst Pug: “hundar með stutta fætur” og “hundar með stuttan haus”. Það var ekki fyrr en seint á 16. öld að Pug hundar komu til Evrópu, þá fyrst til Hollands, en þaðan voru þeir seldir til annarra Evrópulanda svo sem Portúgal, Spánar og Englands og var þá aðeins vitað um leir-ljósa og apríkósu-gula Pug hunda. Það var fyrst á 18. öld að vitað var um tilvist svartra Pug hunda, þökk sé listmálaranum og Pug eigandanum William Hogarth, sem málaði einn þannig í málverki sínu, House of cards, árið 1730. Hann gerði mörg málverk af hundum sínum og því er til mikið af gögnum um útlit Pug hunda frá þeim tíma og til dagsins í dag. Það voru aðallega tvær ættir, á þeim tíma, sem héldu kyninu gangandi í Evrópu, en það voru Willoughby Pugs, sem voru frekar gráir með svartan haus og Morrison Pugs, sem voru Apríkósu-gulir að lit með svart trýni. Það var síðan árið 1860 sem stórt atvik átti sér stað í Pug ræktun. Fluttir voru inn til Englands tveir Hreinræktaðir Pug hundar frá Kína sem hétu Lamb og Moss. Þeir eignuðust soninn Click, sem var margoft notaður til undaneldis og blóð hans hjálpaði mikið til við að blanda saman Willoughby og Morrison ættunum og upp frá því þróaðist Pug tegundin í það sem hún er í dag. Pug hundar voru fyrst sýndir á hundasýningu á Englandi árið 1861. Tíu árum seinna byrjaði útgáfa á ættbókum hreinræktaðra hunda og í fyrstu bókinni voru 66 Pug hundar, en nú eru þeir mun fleiri og dreifðir út um allan heim.

Er Pug fyir þig?

Bella3
Bella

Það er oft talað um að það sé til tvenns konar fólk. Annars vegar er það venjulega fólkið, sem finnst Pug hundar ljótir og hins vegar er það “Pug fólkið”, sem finnst þessi tegund hunda ein sú fallegasta og besta sem völ er á. Fyrrnefndi hópurinn getur alls ekki séð hvað er svona fallegt og skemmtilegt við þessi krumpuðu, litlu fyrirbæri en það er nú samt sem áður þannig að þeir sem kynnast Pug af eigin raun, falla eftir það oftast nær í síðari hópinn. Það eru þó ávallt mismunandi eiginleikar sem fólk leitar eftir þegar það kaupir sér hund. Mismunandi ástæður eru fyrir kaupunum og auðvitað býr fólk við mismunandi aðstæður og þarf því að velja hundinn í samræmi við það. Stóra spurningin er því sú, hvort Pug sé rétti hundurinn fyrir þig.

Ef þú ert að leita að hundi sem?

Django
Django
 •  Er lítill
 •  Er með mikinn persónuleika
 •  Fær þig til að hlæja
 • Er góður með börnum
 • Lyndir vel við aðra hunda og gæludýr
 • Er kelirófa
 • Geltir lítið sem ekkert
 • Líður vel í lítilli íbúð
 • Er laus við “hundalykt”
 • Slefar ekki
 • Þarf hæfilega hreyfingu
 • Er hreinlátur

Þá er Pug fyrir þig!

Ef þú ert að leita að hundi sem?

Einstein
Einstein
 • Fer ekki úr hárum og lætur lítið á sér bera
 • Þarf litla athygli
 • Er hljóðlátur
 • Hægt er að geyma utandyra
 • Auðvelt er að þjálfa til vinnu
 • Er góður veiði- eða vinnuhundur

Þá er Pug EKKI fyrir þig!

Lýsing

Kubbur
Kubbur

Pug hundar eru litlir og dálítið kubbslegir, enda er íslenska þýðingin á tegundinni Kubbur. Þeir eru sterklega byggðir, vöðvastæltir og samræma sér einstaklega vel. Skottið er snúðslaga, hringar sig þétt saman og þykir það allra flottast þegar það myndar tvo hringi. Hausinn er breiður og mikill, ávalur með djúpar hrukkur á enni og “fegrunarblett” á hvorri kinn. Hann er með stór og hnöttótt augu, í dökkum lit, sem eru útstæð og gljáandi og flatt trýnið á alltaf að vera svart.
Eyrun eru mjúk sem flauel, lítil og þunn og eru svört á lit líkt og trýnið. Feldurinn er þykkur með stutt hár, sléttur og mjúkur viðkomu og alltaf einlitur. Ef hundurinn er ljós á litinn getur þó legið dökkur áll eftir bakinu. Viðurkenndu litirnir eru þrír: leir-ljós (fawn) sem er vinsælastur, apríkósugulur (apricot) sem er mjög sjaldgæfur nú til dags og svartur (black) sem er nokkuð sjaldgjæfur, en fer þó ört fjölgandi. Einstaka sinnum koma þó upp furðulegir litir svo sem hvítur (albino) eða bröndóttur (brindle) en þrátt fyrir það er Pug alltaf Pug í hvaða lit sem er!!!

Eiginnleikar

Púki
Púki

Pug hundar hafa “marga eiginleika hunds í litlum líkama.” Þeir eru kátir, fyrirgangssamir og tryggir, tillfinningasamir, elskulegir og einstaklega glaðir að eðlisfari. Þeir eru gáfaðir og heillandi, galsafullir og hrekkjóttir en geta líka verið svolítið þrjóskir.
Þeir fá fólk í kringum sig alltaf til að brosa, enda sannkallaðir trúðar frá guðs hendi, með persónuleika sem er næstum mannlegur. Pug hundar hegða sér óaðfinnanlega með börnum og líta á þau sem fólk í “Pug stærð.” Þá lyndir einnig vel við aðra hunda og gæludýr, en það má hins vegar ekki gleyma því að þeir eru ótrúlega stríðnir og geta svipbrigði þeirra (mimic), svo sem stór og útstæð augu, ásamt hlóðunum sem svo oft heyrast í þeim (kölluð snörl) misskilist af öðrum hundum og þeir litið á það sem ógnun. Það er því ekki ráðlegt að skilja þá eina eftir með stærri hundum nema þeir séu góðir vinir og hafi þekkst lengi. Pug hundar líta nefnilega mjög stórt á sig og myndu því ekki hika við að verja sig ef ráðist yrði á þá, hversu stór sem andstæðingurinn væri. Þeir eru miklar kelirófur, þurfa gríðalega athygli og eiga það til að verða afbrýðisamir ef þeir eru hunsaðir.
Þeir vilja alltaf vera hjá eiganda sínum og eins og skuggi hans, fylgja þeir honum hvert einasta fótspor. Þetta þýðir þó ekki að engan frið sé að fá, því að hann liggur bara hjá þér og fylgist grannt með ef þú ert að horfa á sjónvarpið, læra eða að sinna öðrum verkum. Þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að Pug hundar séu alltaf hljóðlátir. Þeir gefa frá sér ýmiskonar furðuleg hljóð (snörl) og flestir þeirra hrjóta, en þeir gelta þó lítið sem ekkert. Samt sem áður geta þeir verið ágætis varðhundar, því að þeir spretta upp, hlaupa að hurðinni og gelta hástöfum þegar ókunnugt fólk kemur að húsinu. Það er hins vegar auðvelt að vita hvort um sé að ræða ókunnugan eða ekki, því að hann stendur fyrir framan hurðina með skottið á fullri ferð og gefur frá sér fyndin og eftirvæntingarfull hljóð, ef hann þekkir lyktina. Að lokum er rétt að minnast á, að þrátt fyrir sléttan og snöggan feld, þá fara Pug hundar úr hárum allan ársins hring en það fer þó eftir árstíðum hve mikið magn um er að ræða. Það er þó mikil huggun að þeir eru lausir við alla “hundalykt” og ólíkt mörgun hundategundum með flatt trýni, þá slefa þeir ekki.

Umhirða

Nelson
Nelson

Öll umhirða Pug hunda er mjög auðveld. Best er að bursta feldinn daglega, nokkrar mínútur í senn, með stífum hárbursta og mikilvægt er að aldrei sé notaður járnbursti. þeir elska að láta bursta sig og verður þessi daglega athöfn því að ánægjustund, vonandi fyrir báða aðila. Það má þó ekki gleyma því að góð umhirða byrjar innanfrá og til þess að hundurinn líti vel út að utan þarf hann að vera heilbrigður. Því þarf að passa að hann fái gott fæði, hreint vatn, góða hvíld og hæfilega hreyfingu. Allt þetta leiðir til þess að hundurinn fer minna úr hárum.
Pug hundar eru mjög hreinlátir hundar og því er óþarfi að baða þá oft. Ef hundurinn þinn kemur skítugur inn er nóg að taka þykkt handklæði, bleytt með volgu vatni og nudda feldinn kröftulega. Síðan þarf að þurrka hann mjög vel, því annars er hætta á að hann ofkælis. Þá verður ávallt að hreinsa andlitið vel og passa að engin óhreinindi leynist í augum, eyrum, bak við trýnishrukku eða á milli hrukknanna á enninu. Þetta er gert með rökum klút eða bómull og gæta skal fyllstu varúðar til þess að skemma ekki þessi viðkvæmu líffæri. Síðan er það erfiði hlutinn, að klippa klærnar. Af einhverri ástæðu verða Pug hundar snarvitlausir þegar það er og því fastar sem þú heldur þeim, því meira sprikla þeir. Það er því um að gera að venja þá á þetta frá fæðingu og reyna að komast hjá því að klippa í kvikuna. Ef ekkert gengur er hægt að fara með þá til dýralæknis.

Hreyfing

Púki
Púki

Pug hundar þurfa ekki mjög mikla hreyfingu. Það þýðir þó ekki að þeir þurfi enga hreyfingu, því að það er mjög mikilvægt að þeim sé haldið í góðu formi, bæði til þess að þeir séu heilsuhraustir og hlaupi ekki í spik. Æskilegt er að ganga með þá einn til tvo kílómetra á dag og enn betra er að skipta þessu niður í tvo göngutúra, einn um morguninn og annan síðdegis. Hins vegar sjá Pug hundar sjálfir um að fá næga hreyfingu, hafi þeir girtan garð til umráða og þá sérstaklega séu þeir tveir eða fleiri saman, því að þeir elska að ærslast og leika hvor við annan.
Það er þó nauðsynlegt að ganga með þá einu sinni til tvisvar í viku, því að þessi sami garður, 365 daga ársins, verður fljótt óspennandi og leiðinlegur og getur tilbreytingarleysið leitt til þess að þeir hætti að hreyfa sig af sjálfsdáðum. Einnig er gott að láta mismunandi “leiktæki” í garðinn, til að auka fjölbreytnina. Hreyfingu Pug hunda verður þó að takmarka eftir veðri, því að flatt trýnið gerir það að verkum að þeir hafa litla stjórn á hitakerfi líkamans. Það má því alls ekki fara með þá í göngutúr í miklum hita, því að þeim er mjög hætt við ofhitnun og getur því hugsanlega liðið yfir þá. Við þurfum þó ekki að hafa áhyggjur af þessu hér á Íslandi (ennþá;) því hitinn hér verður sjaldan það mikill að þeir ráði ekki við hann.
Hins vegar getur kuldinn orðið mikill og til að varna þeim frá lungnabólgu er um að gera að stytta göngutúrana örlítið. Á meðan göngunni stendur er einnig mikilvægt að þeir séu alltaf á hreyfingu og þegar heim er komið verður að þurrka þá fljótt og vel. Pug hundar eru samt ótrúlega góðir í kulda og hér er því sjaldan hægt að nota veðurfarið sem afsökun til að sleppa göngutúr. Á köldum vetrardögum er líka hægt að klæða þá í flísbúning til að halda þeim heitum, en það er þó frekar skemmtun en nauðsyn. Í göngutúrum er best að nota stillanlega ól, sem nær bæði kringum háls og maga en ekki er ráðlegt að hafa á þeim hálsól innanhúss. Einnig skal taka það fram að aldrei má nota kyrkingaról á Pug hunda!

Fóðrun

Einstein og Jóa
Einstein og Jóa

Ráðlegast er að gefa Pug hundum tilbúið þurrfóður (gæða-heilfóður og helst litlar kúlur) sem annaðhvort er gefið þurrt eða útbleytt með vatni eða kjötsoði og einnig er hægt að blanda dósamat saman við. Þegar þú færð hvolpinn þinn afhentan frá ræktanda er mjög gott að fá frá honum ráðleggingar um mataræði. Fáðu að vita hve oft á dag hvolpurinn er vanur að borða (oftast 3-4 sinnum á dag, fyrsta árið;) og hve mikið magn hann fær í hvert skipti. Einnig er gott að halda áfram að gefa honum sömu gerð fóðurs og ræktandinn, því að snöggar fóðurbreytingar geta valdið meltingatruflunum og/eða niðurgangi og eru þar að auki ekki góðar fyrir feldinn.
Ávallt skal gæta þess að hundurinn hafi aðgang að fersku vatni (skipt um 2-3 sinnum á dag) og fyrir hvolpinn er líka til sérstök hvolpamjólk í duftformi, blönduð með volgi vatni, sem hægt er að gefa þeim til drykkjar, fyrstu 3-4 mánuðina ásamt vatninu. Ekki er ráðlegt að gefa hundum kúamjólk, því að hún er mjög ólík tíkarmjólk og virðist sem þeir eigi erfitt með að brjóta hana niður við meltingu. Margir hundar sem fóðraðir eru á kúamjólk fá því króníska ertingu í maga, ásamt niðurgangi. Eftir fyrsta árið er síðan best að skipta dagskammtinum í tvennt og gefa þeim tvisvar á dag, því að þannig nýta þeir fóðrið best. Einnig er ágætt að blanda stundum örlítilli AB-mjólk saman við fóðrið, en mikilvægt er þó að gæta þess að þeir fái ekki of mikið að borða eða verði of feitir, því Pug hundar eru miklir matgæðingar og þegar þeir eiga í hlut, eru hlutirnir fljótir að gerast.
Hundar eru mikil vanadýr og því er gott að hafa ávallt reglu á matmálstímum og gefa hundinum góðan frið til að éta. Ekki er ráðlegt að láta mat vera í dallinum allan daginn, því þá geturðu átt það á hættu að hundirinn sé sífellt nartandi og borði því ekki vel á matmálstímum. Athugaðu líka að ef þú gefur hvolpinum einu sinni frá borði, gæti hann orðið sníkinn til frambúðar. Honum gæti einnig hætt að líka við þurrfóðrið eitt og sér, ef þú gefur honum stundum eitthvað góðgæti með því og reyndu að muna að það sem hundur veit ekki að er til, langar honum ekki í. Að lokum skal bent á það að Pug hundar þurfa að fá nagbein, meðal annars til að hreinsa tennur og eru þá leðurbeinin best til þess fallin. ATH! Það má alls ekki gefa hundum kinda-, fugla- eða fiskbein, þar sem þau brotna niður í oddhvassar flísar, sem geta stungist í háls, vélinda eða maga.

Breki
Breki

Aldur stærð og þyngd
# Meðalævi Pug hunda er 12-15 ár
# Pug hundar eru u.þ.b. 30-36 cm. á hæð og 6-9 kg. að meðaltali.
# Pug tíkur eru u.þ.b. 25-30 cm. á hæð og 6-8 kg. að meðaltali.

Til þess að halda Pug hundum innan þessara þyngdarmarka verður að passa að hann fái hæfilega hreifingu og ekki of mikið að borða. Pug hundar eru miklir “matgæðingar” og því verður skalinn á vigtinni fljótur að hækka ef þeir fá að fara sínu fram.