Útlit

Poodle er glæsilegur hundur sem samsvarar sér vel, þeir bera sig vel, eins og þeir viti nákvæmnlega hversu fallegir þeir eru. Þeir eru með einfaldan, þéttan og krullaðan feld sem yfirleitt er slétt úr. Þeir koma í nokkrum litum; svartur, hvítur, grár, brúnn, rauður og apríkósulitaður. Hundarnir koma í fjórum stærðum; standard: yfir 45 cm-60 cm, medium: 35-45 cm, minature: 28-35 cm, toy: 24-28 cm á herðarkamb. Að öðru leiti er ræktunarmarkmið hið sama fyrir allar stærðirnar.

Umhirða

Hundarnir fara ekki úr hárum og eru síður ofnæmisvaldandi en margar aðrar tegundir. Þeir hafa einfaldan feld sem vex og þarf að klippa á u.þ.b. 2 mánaða fresti hjá hundasnyrti. Feldurinn er krullaður en þegar búið er að baða hann og bursta er hann sléttur. Hundana ætti að bursta daglega og baða reglulega. Tími sem fer í að bursta fer eftir stærð hundsins og hve langur feldurinn er hafður. Fylgjast ætti með eyrum hundanna.

Saga

Poodle er gömul tegund sem hefur verið til lengi en uppruni er nokkuð óljós. Ekki eru allir sammála um hvort Poodle sé þýsk eða frönsk tegund en upprunaland tegundar er þó skráð í Frakklandi og er hundurinn þjóðarhundur þeirra. Upprunalegu Poodle hundarnir voru notaðir sem sækjandi fuglahundar en þeir eru frábærir á sundi og voru mest notaðir til að sækja í vatni. Standard poodle er upprunalegi hundurinn en hinar þrjár stærðirnar voru ræktaðar út frá honum. Allir þessir forfeður púðlans voru taldir afbragðs sundhundar, nema einn, truffle hundurinn sem talinn er forfaðir minature og toy poodle. Þeir voru notaðir við að finna trufflusvepp, sem er villtur ætisveppur. Minni hundar voru æskilegri í að finna og grafa upp sveppina, þar sem nettari loppur þeirra skemmdu síður sveppinn. Kenningar eru uppi um að terrier hafi verið blandað við poodle til þess að skapa þennan eftirsótta truffle hund. Margir minni púðlar synda þó í dag.

Poodle hafa í gegnum tíðina verið vinsælir fjölleikahús hundar en þeir voru fljótir að læra ýmsar kúnstir og hægt var að klippa þá í alls konar skemmtilegar klippingar. Sýningarklippingar hundanna í dag eru örlítið ýktar útgáfur af vinnuklippingum hundanna áður fyrr. Hundurinn var rakaður að hluta til að létta á honum og skildir voru eftir brúskar til að vernda mikilvægustu líffæri og liðamót hundsins í köldu vatninu.

Eiginleikar

Hundar af þessari tegund eru fullir af húmor, líflegir og kátir. Þeir hafa notið mikilla vinsælda um allan heim og það er ekki að ástæðulausu. Þrátt fyrir að flestir haldi tegundina fyrst og fremst sem heimilishund er Poodle í hjarta sínu vinnuhundur og leiðist að hafa ekkert fyrir stafni. Poodle líkar að vera miðpunktur athyglinnar og eru mörg verkefni sem púðlum ferst vel úr hendi, enda bráðgáfaðir og fljótir að læra. Enn í dag eru Standard Poodle notaðir sem sækjandi fuglahundar ásamt því að standa sig vel í t.d. spora- og hlutaleit, hlýðni, hundafimi og sem aðstoðarhundar en hundarnir elska að sýna hvað þeir kunna.

Poodle bindast eiganda sínum sterkum böndum og eru fljótir að finna út hvernig skapi hann er í, ef eigandinn er í uppnámi, verður hundurinn það oft líka.

Poodle er vökull hundur og gæti látið eiganda sinn vita með gelti ef einhver bankar uppá. Sem hvolpur ætti hann að fá góða umhverfisþjálfun svo hann verði ekki skeptískur við ókunnuga.
Ef Poodle fær litla athygli og örvun munu þeir sjálfir finna sér eitthvað að gera og þá er það oftar en ekki eitthvað sem eigandanum mislíkar.

Heilsa

Þrátt fyrir að Poodle verði nokkuð langlífir, eða um 15 ára gamlir eru nokkrir sjúkdómar sem geta hrjáð hunda af þessarri tegund. Þeir geta fengið augnsjúkdómana PRA og catarakt, eins geta þeir fengið flogaveiki, mjaðma- og hnéskeljalos. Addison’s skjúkdómur (ófullnægjandi framleiðsla á kortisóli í nýrnahettunum) er nokkuð algengur hjá tegundinni.