Útlit

King Charles spaniel er lítill og kubbslegur hundur með hvelt höfuð, lágsett eyru, stutt trýni og undirbit. Þeir eiga að vera 3,6-6,3 kg. Þeir eru síðhærðir, sérstaklega á eyrum, bringu, aftaná fótum og skotti. Tegundin kemur í fjórum litum; Black og tan (svartur með tan merkingum), Ruby (rauðbrúnn), Blenheim (perluhvítur grunnlitur með rauðbrúnum flekkjum) og þrílitur (perluhvítur grunnlitur með svörtum flekkjum og tan merkingum).

Umhirða

King Charles spaniel þarf að bursta lágmark 2-3 í viku og baða mánaðarlega. Það á ekki að klippa tegundina en þó þarf aðeins að klippa hárin á milli tánna. Gæta þarf þess að halda augunum og svæðinu undir augunum hreynum. Eins er gott að fylgjast með eyrum hundanna, því eyrun eru loðin og loftar oft illa um þau. Þegar það er blautur snjór getur hann festst í feldinum á hundunum, sérstaklega fótum þeirra.

Saga

Heimaland tegundarinnar er England en líklega bárust forfeður hans sem voru dvergspaniel frá Asíu til Ítlíu á 13. öld og þaðan til annarra Evrópulanda. Hann var mikið í eigu kóngafólks í Evrópu á 15. og 16. öld. Hundarnir, sem einnig eru forfeður Cavalier king Charles spaniel, náðu sínum mestu vinsældum á 17. öld í valdatíð Stuartana en þeir draga nafn sitt af Karli II Bretakonungi. King Charles spaniel varð til þegar fólk fór að sýna hunda sína á seinni hluta 19. aldar en þá breyttust hundarnir í útliti miðað við það sem var í tísku á þeim tíma. Með valræktun og blöndun annarra tegunda urðu þeir minni og fengu stutt trýni, hvelt höfuð og lágsett eyru.

Þrátt fyrir að frændi hans Cavalier king Charles spaniel hafi náð miklum vinsældum í dag, er tiltörulega lítið til af King Charles spaniel hundum í heiminum en þeir eru fyrst og fremst heimilishundar.

Eiginleikar

King Charles spaniel eru þægilegir á heimili og yndislegir félagar. Þeir eru þekktir fyrir að vera glaðlyndir og blíðir, ásamt því að vera þolinmóðir og auðveldir í þjálfun. Þeir eru félagslyndir, njóta samveru með fólkinu sínu og njóta þess að fara með þeim í göngutúra. Þeim finnst einnig skemmtilegt að hitta aðra hunda, sérstaklega af sama kyni. Tegundin þolir illa mjög heita veðráttu.

Heilsa

Því miður eru þó nokkrir sjúkdómar sem geta fylgt tegundinni og þá ber fyrst að nefna hjartasjúkdóminn míturmurr en það er bilun á hjartalokum sem því miður er algengari hjá king charles spaniel og cavalier en hjá öðrum tegundum og ein helsta dánarorsök þeirra. Hundarnir geta fengið augnsjúkdóma og hnéskeljalos, ásamt því er tegundin líkleg til þess að fá bólgur í eyru og endaþarmskirtla. Það þekkist að þeir séu með opna fontanellu en þá er gat á höfuðkúpunni og heilinn ekki full varinn. Hundar af þessari tegund verða um 10 ára gamlir.