Havanese hefur nokkuð óheflað útlit. Hann er síðhærður og töffaralegur, með glansandi feld sem getur verið nánast sléttur, liðaður eða hrokkinn. Skott er borið hátt og leggst með silkimjúkum hárum sínum yfir bak hundsins. Havanese er sterkbyggður og getumikill smáhundur, vel gerður og líkamlegt atgervi er gott. Sterkir fætur valda því að hreyfingar eru mjúkar, frjálsar og án alls erfiðis.  Líflegar og fjaðrandi hreyfingarnar endurspegla enn fremur hinn káta og vinalega persónuleika Havanese. Tegundin býr yfir einstakri genaflóru hvað liti varðar og kemur í fjölmörgum litaafbrigðum.

13087827_1159302440757356_6361071758334257154_nTegundin á ekki að valda ofnæmi og hentar því vel fyrir þá sem þjást af ofnæmi.

15388741_1336033676417564_1003517493_oEf lýsa ætti Havanese með einu orði er “trúður” það fyrsta sem kemur í hugann. Þeir eru ekki aðeins fyndnir og trúðslegir í útliti heldur eru langflestir einnig algjörir trúðar í sér, hoppa og skoppa um og sækja athygli með því að endurtaka allskyns kúnstir, t.d. að hlaupa endurtekið milli tveggja herbergja eins hratt og þeir geta. Havanese hreinlega dáir fjölskyldu sína, hann þarfnast þess að fá að vera hluti af henni og taka þátt í sem flestu sem hún tekur sér fyrir hendur.

Bonny
Bonny

Havanese er mjög duglegur og þolir langar göngur og finnst fátt skemmtilegra en að hlaupa um laus og leika sér.  Útivera er jú nauðsynleg fyrir okkur öll! Ef veðrið er ekkert of skemmtilegt þá eru þeir líka alveg sáttir við að kúra bara heima með sínu fólki og hafa það huggulegt.

Ef þú ákveður að Havanese sé tegundin fyrir þig, vertu þá viss um að þú sért líka eigandinn fyrir havanese!