Útlit

Chihuahua er minnsta hundategund í heimi og eiga þeir að vera frá 1,5- 3 kg. Þeir koma í tveimur feldgerðum, síð- og snögghærðum og eru allir litir leyfðir nema merle. Þrátt fyrir að vera litlir eiga chihuahua að vera kröftugir og kroppurinn nokkuð ferkantaður. Höfuðið á að vera eplalaga og trýnið með vel mörkuðu 90°stoppi og eyrun upprétt og sett þannig að þau vísi ,,tíu mínútur í tvö“,

Umhirða

Síðhærða afbrigðið þarf að bursta af og til, sérstaklega fíngerðu hárin á eyrunum. Hundarnir eru léttir og því eyðast klærnar oftast verr en á stærri hundategundum og því gæti þurft að klippa þær oftar. Það leka tár úr augum sumra hundana og þá þarf að strjúka reglulega með rökum klút eða bómul undir augun, jafnvel er hægt að nota augnhreinsi.

tjui4

Saga

Saga tegundarinnar er á reiki en talið er að hægt sé að rekja ættir þeirra allt til Mexíkó hið forna, nánar tiltekið til tíma Tolteka. Þeir eiga að hafa hænt hundana að sér sem þá lifðu villtir og er að finna myndir af hundum sem svipa til nútíma chihuahua á útskurði frá 9. öld. Kynið var nokkuð fágætt þar til um 1900 þegar skipulögð ræktun hófst, fyrst í Mexíkó og Bandaríkjunum og síðar í Evrópu. Síðan hafa chihuahua aukist mikið í vinsældum og á tímabilum svo mikið að það hefur bitnað á gæðum ræktunarinnar.

Eiginleikar

Chihuahua eiga að vera glaðir og þrátt fyrir smæð sína, öruggir með sig og hugaðir. Þeir gefa stærri hundum oft ekkert eftir í göngutúrum og geta verið skemmtilegir í þjálfun, fái þeir tækifæri til þess að sanna sig. Chihuahua eru þó oft ekki mikið gefnir fyrir kalt veðurfar, rigningu eða snjó, þó sannarlega finnist undantekningar. Hlýtt veðurfar og sól er þeim að skapi og oft liggja þeir þar sem sólargeislar læðast inn um gluggana. Þeir eru ,,holudýr“ og finst oft gott að troða sér undir sæng, teppi, eða kúra í yfirbyggðu bæli eða búri.

Chihuahua eru bráðsnjallir og sniðugir að ná sínu fram en svo vel eigi að vera þarf eigandinn að vera sniðugri og beita jákvæðum aga án hörku til þess að fá hundinn með sér.

tjui3

Heilsa

Ekki er óalgengt að hundar af þessari tegund þjáist af hnéskeljalosi. Eins eru sumir hundar með opna fontanellu, en þá er gat á höfuðkúpu hundsins, eins og á ungabörnum. Ef hundur er með stóra opna fontanellu er heili hundsins óvarinn og stundum kemur fyrir að hundarnir séu með svokallað vatnshöfuð. Bit og tanngallar eru ekki óalgengir. Chihuahua þolir illa kulda og þá sérstaklega snögghærða afbrigðið. Almennt eru hundar af tegundinni þó nokkuð heilsuhraustir en hundar sem eru mjög litlir, ,,tecup“ eða ,,dvergar“ eru þó líklegri til þess að hafa heilsufarsvandamál en þeir sem eru í eðlilegri stærð.

Áhugavert

Þrátt fyrir að vera smáir hafa chihuahua náð árangri í ýmsu hundasporti og geta komið mörgum á óvart leyfi eigandi þeirra þeim að vera hundar en ekki dúkkur eða skraut. Á Íslandi hafa chihuahua til dæmis sannað sig í hundafimi, sem heimsóknarvinir Rauða kross Íslands og tekið bronspróf í hlýðni.