Útlit

Cavalierinn er smáhundur en þó er hann stærstur smáhunda og eiga þeir að vera á bilinu 5,5-8,2 kg. Hundarnir eru sterkbyggðir og blíðlegir að sjá. Eitt helsta einkenni tedundarinnar er skottið sem hundurinn dillar í sífellu. Hundarnir eru síðhærðir, sérstaklega á eyrum, bringu, aftan á fótum og skotti. Tegundin kemur í fjórum litum; Black og tan (svartur með tan merkingum), Ruby (rauðbrúnn), Blenheim (perluhvítur grunnlitur með rauðbrúnum flekkjum) og þrílitur (perluhvítur grunnlitur með svörtum flekkjum og tan merkingum).

Umhirða

Cavalier þarf að bursta lágmark 2-3 í viku og baða mánaðarlega. Það á ekki að klippa cavalier, en þó þarf aðeins að klippa hárin á milli tánna. Gæta þarf þess að halda augunum og svæðinu undir augunum hreinum. Eins er gott að fylgjast með eyrum hundanna, því eyrun eru loðin og loftar oft illa um þau. Þegar það er blautur snjór getur hann festst í feldinum á hundunum, sérstaklega fótum þeirra.

cavalier1

Saga

Heimaland tegundarinnar er England en líklega bárust forfeður hans sem voru dvergspaniel frá Asíu til Ítlíu á 13. öld og þaðan til annarra Evrópulanda. Hann var mikið í eigu kóngafólks í Evrópu á 15. og 16. öld. Tegundin dregur nafn sitt af Karli II Bretakonung sem var við völd á 17. öld, þá náði tegundin sínum mestu vinsældum. Á seinni hluta 19. aldar fór fólk að sýna hunda sína og breytti útliti hundanna. Það var á þeim tímapunkti sem King Charles spaniel varð til. Malborough ættin á Blenheim setrinu hélt þó upp á upprunalegu hundana en þeir voru þekktir fyrir að vera frábærir veiðihundar með gott þefskyn, sem bæði fundu og fældu upp fugla. Að undanskildum þeim hundum voru nánast engir hundar af upprunalega útlitinu eftir í lok 19. aldar. Í byrjun 20. aldar var þó hafist handa við að reyna að endurheimta upprunalega hundinn og var Cavalier king Charles spaniel klúbburinn stofnaður 1928. King Charles spaniel og Cavalier king Charles spaniel töldust þó vera sama tegund þar til eftir stríð.
Í dag er Cavalier vinsæll heimilishundur út um allan heim og í mörgum löndum mjög ofarlega á lista vinsælustu tegundanna.

Eiginleikar

Cavalier eru yndislegir félagar, þolinmóðir og þægilegir heimilishundar. Þeir eru blíðir og glaðlyndir og flestir hundar af kyninu gelta sjaldan. Cavalierinn er félagslyndur og nýtur þess að gera eitthvað með fólkinu sínu og hitta aðra hunda, sérstaklega af sama kyni. Honum finst skemmtilegt að fara í göngutúra og þá sérstaklega að hlaupa laus í náttúrunni. Hann er harðger hundur og getur vel farið í lengri göngur ásamt eiganda sínum en sættir sig þó við það sem er í boði. Þeir eru tiltölulega auðveldir í þjálfun og njóta þess að þóknast eiganda sínum.

Þrátt fyrir að cavalier hundar hafi áður fyrr fyrst og fremst verið félagar var hluti þeirra notaður við veiðar, eins og áður kom fram. Þetta veiðieðli finst ennþá í einhverjum cavalier hundum í dag en sumir eru einkar duglegir að finna fugla. Cavalierar eru með mjög gott lyktarskyn og gæti komið einhverjum á óvart hve flinkir þeir eru að nota nefið sitt.

cavalier4

Heilsa

Því miður eru nokkrir sjúkdómar sem geta fylgt tegundinni. Þess ber helst að nefna míturmurr í hjarta, sem er ein helsta dánarorsök tegundarinnar en þá fara hjartalokur að bila fyrr en hjá öðrum hundategundum, því seinna sem þeir greinast með sjúkdóminn, því betra.

Ekki óalgengt er að cavalier fái bólgu í eyru og í endaþarmssekki. Eins geta komið tilfelli af augnsjúkdómum eða hnéskeljalosi.

Syringomyelia (SM) er talið vera orðið vandamál hjá tegundinni í dag, hægt er að lesa hér: http://www.dyralaeknir.com/2008/03/21/holmaena-syringomyelia/ um sjúkdóminn.

Hægt er að DNA prófa Cavalier hunda fyrir sjúkdómunum Dry eye/ Curly coat og Episodic Falling í dag en það er skylda fyrir pörun hjá Cavalier deild HRFÍ og því ætti ekki að vera hætta á því í dag að einstaklingur sé með þessa sjúkdóma.

Cavalier verða um 10 ára gamlir að meðaltali.