Útlit

Labrador er sterklega byggður hundur með lafandi eyru og kröftuga rófu. Rakkar eru um 56-57 cm og tíkur eru um 54-56 cm á herðarkamb. Feldurinn er stuttur og hrindir frá sér vatni. Þeir eru einlitir og koma í þremur litum; svartur, gulur og súkkulaðibrúnn.

Umhirða

Snöggur feldurinn þarnast engrar sérstakrar umhirðu. Varast skal að baða hundinn of oft með sápu til þess að eyðileggja ekki náttúrulega olíu í feldinum.

Saga

Flestir eru sammála um að tegundin á uppruna frá Nýfundnalandi seint á 18. öld og afkomandi St. Johns hundsins sem eru til heimildir um allt frá 16. öld. St. Johns hundinum er lýst sem svörtum hundi á stærð við pointer með svartan, þéttan feld. Hundurinn var frábær sem sækjandi fuglahundur og fljótur á hlaupum og sundi. Þessir hundar voru stundum einnig kallaðir Lesser Newfoundland, en það er ekki sami hundur og nútíma Nýfundnalandshundur sem var kallaður Greater Newfoundland og var mikið stærri og með síðari feld. St. Johnes hundur/Lesser Newfoundland voru félagar fiskimanna og hjálpuðu þeim við vinnu sína en vegna feldsins gátu þeir auðveldlega farið í kaldan sjóinn og hjálpað með netin og sótt fisk sem fiskimennirnir misstu í sjóinn.

Fyrstu hundarnir af kyninu voru fluttir til Pool í Englandi snemma á 19. öld en Earl of Malmesbury sá hvað hundarnir gátu gert og varð mjög hrifinn af þeim. Hann byrjaði að kalla hundana Labrador og notaði þá sem sækja eftir alls konar bráð á skotveiðum. Hafist var handa að ættbókarfæra hundana árið 1870 en þeir voru ekki viðurkenndir af Breska kennel klúbbnum fyrr en 1903.

Eiginleikar

Labradorar eru afar greindir og hafa ljúfa og glaða lund. Þeir eru vinsælir heimilishundar en eru einnig fjölhæfir og henta í margs konar vinnu. Labradorar eru frábærir sækjar, bæði í vatni og á landi en þeir eru vel byggðir til sunds og feldurinn hrindir frá sér vatni. Hundarnir hafa gríðarlega gott sjónminni og geta munað lendingarstað nokkurra fallinna fugla í einu.

Tegundin er þekkt fyrir afar gott lyktarskyn og eru flinkir að rekja slóð. Þessir eiginleikar nýtast honum vel sem veiðihundur en að auki hefur hann reynst vel í margskonar vinnu. Til dæmis eru margir einstaklingar sem vegna sér vel sem sporahundar, fínkniefnahundar, blindrarhundar og hjálparhundar fyrir fatlaða.

Flestir sjá fyrir sér Labdrador sem rólegan og glaðan hund og það á hann svo sannarlega að vera. Þrátt fyrir það geta þeir krafist mikillar þolinmæði af hálfu eiganda en hundurinn er líflegur og orkumikill sem hvolpur og unghundur. Ef þú færð Labrador til þess að vinna með þér, en ekki á móti eru næstum engin takmörk fyrir því hvað hægt er að gera með hundinum.

Ásamt hreyfingu þarf hundurinn andlega örfum. Ef hundurinn er eingöngu heimilishundur sem ekki er notaður í neins konar vinnu ætti að hafa í huga að hundurinn fái að nota sína sterkustu eiginleika svo hann njóti sín, t.d. fá að nota nefið og sækja hluti á landi og í vatni.

Heilsa

Innan tegundarinnar eru einstaklingar með mjaðmalos. Einnig finnast tilfelli um augnsjúkdóma. Labrador verða um 10-13 ára gamlir.

Áhugavert

Áður en 20. öldin gekk í garð áttu allir Labradorar að vera svartir, en samt fæddust bæði gulir og súkkulaðibrúnir hvolpar sem ekki voru samþykktir sem hreinræktaðir. Ræktendur fóru svo að sýna áhuga á því að samþykkja hina litina í tegundinni og fyrsti guli Labrador hundurinn var skráður árið 1899.