10661731_10203489476609810_4809231844263799145_o

Whippet er meðalstór hlaupahundur af mjóhundakyni. Auðveld umhirða hans, ótrúlega ljúf skapgerð ásamt gríðarlegum vilja til að þóknast eigendum sínum gerir hann að yndislegum félaga og fjölskylduhundi og er oft mælt með honum sem fyrsta hundi. Whippet er mjög fjölhæfur hundur og elskar að fá að fylgja fjölskyldu sinni og taka þátt í sem flestu, hvort sem það er að fara út að skokka, hjóla, í létta göngu, fjallgöngu,skutla börnunum á æfingu, hundafimi, hundasýningu, sofa út eða bara hanga í sófanum fyrir framan sjónvarpið – flest gerir Whippet með mikilli ánægju.
Heima fyrir er Whippet rólegur hundur sem oftast er síðastur á fætur og felur sig djúpt undir sæng ef hann heyrir vindinn blása og rigninguna lemja gluggana en getur síðan á augabragði breyst kraftmikinn orkubolta sem þýtur á „ljóshraða“ um engi og tún þegar honum er sleppt lausum.
Að eiga eða hafa átt Whippet skilur ávallt eftir varanleg spor á sálinni og flestir bæta við sig öðrum eða fá sér annan þegar góður félagi fellur frá.

 

Uppruni:

Uppruni Whippet er tvíþættur, sá rómantíski er að saga hans hefjist í Róm og Egyptalandi til forna. Óteljandi myndir, styttur, freskur og leirker skreytt smávöxnum Greyhound sem líkjast mjög Whippet styðja þær kenningar. Rómverjar mátu veiðar með mjóhundum mikils og eru til lofsverðar frásagnir af litlum snöggum hundum sem hlupu uppi minni bráð.
Gallar og Keltar höfðu samt sem áður alla yfirburði í veiðum með hunda og þeirra áhugi hafði þróast frá því aðalmarkmiði að fara heim með bráðina og voru veiðarnar orðnar að tómstundaiðju þeim til skemmtunar. Uppáhaldsiðja þeirra var að elta hjört þar til hann örmagnaðist eða sleppa tveimur litlum Greyhound á sama tíma. „Gallar veiða ekki til að ná bráðinni heldur til að horfa á hundana sína vinna saman með snerpu og hraða. Ef hérinn sleppur frá hundunum kalla þeir hundana sína tilbaka og gleðjast yfir heppni og yfirburðum mótherjans“, skrifaði rómverski sagnfræðingurinn og heimspekingurinn, Arrian, sem var uppi í kringum 86-160. Án efa fléttast þetta allt inn í sögu Whippet en það er þó ekki fyrr en árið 1891 sem Whippet er viðurkenndur og skráður sem tegund hjá breska hundaræktarfélaginu. Um miðja 19. öld þróaðist sá Whippet sem við þekkjum í dag á Norður-Englandi. Fátækir breskir námuverkamenn blönduðu smágerðum Greyhound með terrier-hundum og var útkoman lítill harðger, snöggur og þolmikill hundur. Á þeim tíma var betra ef hundar voru ekki stórir og þar af dýrir í rekstri en einnig varð hann að vera til gagns fyrir heimilið og það var Whippet svo sannarlega . Hann veiddi héra í matinn, hélt hita á börnunum á nóttunni og jafnvel bætti við auka pening í vasa eigandans á sunnudögum þegar haldnar voru hlaupakeppnir eða „rag-racing“ en þar gat Whippetinn grætt meira á nokkrum sekúndum en það sem námuverkamaðurinn vann fyrir sér á heilli viku. Þar fékk Whippet viðurnefnið „veðhlaupahestur fátæka mannsins“. Góður Whippet var því dýrmætasta eign þessara námuverkamanna og þá daga sem lítið var um mat var þess alltaf gætt að Whippetinn fengi sinn kjötbita þó aðrir fjölskyldumeðlimir færu í rúmið eftir magra máltíð af þurrum brauðskorpum.

465561_3618711618677_1636770096_o 478300_3618759699879_285971330_o

Saga Whippet á Íslandi

Árið 1978 flutti bresk-íslensk fjölskylda til Keflavíkur frá Bretlandi og með þeim í för var elskaði fjölskylduhundurinn, lítill yrjóttur Whippet sem var kallaður Bimbó. Á þeim tíma var engin einangrunarstöð til og Bimbó var því settur í heimaeinangrun en meðan á þeim tíma stóð fékk hann að fara út á bílskúrsþak hússins til að gera stykkin sín og þurfti svo að koma í reglulegt eftirlit til dýralæknis á svæðinu. Dýralæknirinn var nú ekki hrifinn af þessu vesæla dýri og spurði fjölskylduna ávallt hvort hann ætti ekki að losa þau við þetta kvikindi með eins og einni kúlu. Sem betur fer myndi engum starfandi dýralækni detta í hug að koma með þvílíkt tilboð í dag. Tæpum 3 árum eftir flutninginn breyttust áætlanir fjölskyldunnar og þurfti hún að snúa aftur til Bretlands. Vegna þess hve erfiðar og strangar innflutningsreglurnar til Bretlands voru ákvað fjölskyldufaðirinn að það væri ekki á Bimbó leggjandi að dúsa 6 mánuði í einangrun og var hann því skilinn eftir á Íslandi hjá ömmunni. Bimbós var sárt saknað og gleymdist aldrei. Gaman er að segja frá því að dóttirin, sem þá var ung stúlka, býr nú ásamt fjölskyldu sinni hér á landi á sama stað og Bimbó eyddi síðustu árum sínum og á heimilinu er að sjálfsögðu Whippet sem heldur uppi minningu Bimbós.

Það var ekki fyrr en árið 2002 sem næsti Whippet kom til landsins og var þá skráður í HRFÍ en það var ISCH Siprex Klara „Skutla“ sem kom frá Noregi.Í lok sama árs bættist svo við ISCH Siprex Petter „Snabbi“. Árið 2004 komu Svo ISCH Siprex Maja og C.I.B. ISCH ISW-06 Courtborne Keyzers Arwen „Elding“ . Þann 7. desember 2004 fæddist fyrsta Whippet-gotið hér á landi. Síðan þá hafa verið fluttir inn 3 hundar til viðbótar: 2007 Courtborne Diesel Celeborn „Draumur“ (Noregi); 2009 Siprex Dante (Noregi) og Mossbawnhill Glory Bound „Eldar“ (Írlandi). 2006 var flutt inn frosið sæði frá Svíþjóð undan Multi CH Adagio Love Supreme sem gaf af sér 1 hvolp. Núna í lok ársins 2010 hafa verið skráð 8 Whippet-got hjá HRFÍ, samtals 46 hvolpar.

 

Útlit

Whippet er mjósleginn hundur með stuttan en silkimjúkan feld, ræktaður fyrir mikinn hraða og snerpu. Whippet á að geta skipt um stefnu á „fimmeyring“. Whippet á að sýna jafna blöndu af krafti og vöðvastyrk á móti fegurð og glæsileika. Stærð tegundarinnar hefur aukist undanfarin ár og er mikill munur á þeim hundum sem nú sjást og þeim sem voru uppi fyrir 15-20 árum síðan. Æskileg stærð hunda er enn skráð 47-51 cm og hjá tíkum 44-47 cm. Æ sjaldnar sjást hundar undir 50 cm og tíkurnar eru flestar 46-49 cm. Brjóstkassinn á að vera djúpur með nægu hjartarými enda hafa Whippetar stærra hjarta og lungu en aðrir hundar og lærin eru kröftug og vöðvamikil .
Allir litir eru leyfilegir en svartur er víkjandi í genum þeirra og erfitt að rækta fram þann lit.

462606_10200420265841459_153069858_o

Umhirða

Umhirða Whippet er frekar einföld, hann er með stuttan feld sem safnar ekki í sig óhreinindum og lyktar ekki. Klippa þarf klær reglulega en þær vaxa hratt og slitna illa, einnig er nauðsynlegt að huga að tönnum þeirra frá þriggja ára aldri og hreinsa ef þörf er á. Regluleg hreyfing er nauðsynleg en þeir þurfa þó ekki jafn mikla hreyfingu og margir halda. Þeir eru jafn ánægðir með stuttar reglulegar göngur svo lengi sem þeir fá að hlaupa frjálsir reglulega og teygja vel úr sér. Það er stórkostleg sjón að fylgjast með Whippet hlaupa á harðaspretti, hvort sem það er einn á eftir bolta eða í hóp með öðrum Whippetum og verður maður alltaf jafn gáttaður á þeim sprengikrafti sem býr í þessum lipra, ljúfa hundi. Þeir sem hafa hug á því að sýna hunda sína þurfa þó að byggja hunda sína upp frá unga aldri, gefa þeim góða og fjölbreytta hreyfingu og halda þeim þannig stöðugt í góðu formi. Það má segja að það sé ekki ósvipað því að byggja upp atvinnufrjálsíþróttamann. Þetta geta þó allir sem gefa sér tíma, því Whippet sér oftast sjálfur um hreyfinguna og eigandinn getur oftar en ekki látið sér nægja að dást að honum.
Hinn þunni stutti feldur og engin aukafita gerir þá ansi kulvísa og á vindur og rigning illa við þá. Þó er hægt að klæða þá í góðar kápur fyrir kaldari daga og göngutúra en þeir þurfa sjaldnast að klæðast neinu í frjálsum hlaupum og flestir Whippetar elska að leika sér í snjó.

 

Hreyfing og vinna

Whippet er mjög fjölhæfur og hægt að stunda ýmislegt með honum. Eigendur þeirra eru hvattir til að prófa sem flest með þeim og leyfa þeim að koma sér á óvart en það sem stendur þó upp úr hjá þeim og þar sem þeir njóta sín best er í beituhlaupi (lure coursing) þar sem þeir eru látnir elta gervibráð – oftast plastræmur – sem þræddar hafa verið með trissum á tún og dregnar inn á miklum hraða með hlaupavél. Hlaupið á helst að líkjast því hvernig bráðin þeirra hefði hagað sér á flótta undan þeim. Þar fær Whippetinn að njóta sín við það sem hann var upphaflega ræktaður til og hafa eigendur ekki síður gaman að þessu og fara allir ánægðir heim eftir gott og skemmtilegt hlaup. Fyrsta hlaupavélin kom hingað til lands sumarið 2007 og er í eigu Leifturs-ræktunar en vorið 2009 flutti Mjóhundadeildin inn annað tæki og hóf reglulegar beituhlaupsæfingar. Mjóhundadeildin stefnir að því að geta haldið fyrstu beituhlaupskeppnina vonandi sumar/haust 2011

Whippet hundar geta verið slysagjarnir enda með þunnan feld sem ver þá ekki vel og eiga það til að rifna. Eigendurnir venjast því fljótt að þurfa að láta sauma þá reglulega en auðvelt er að gera að flestu í staðdeyfingu hjá þeim enda rólegir og harðgerðir. Fátt er jafn virðulegt og að sjá hraustan, aldraðan, örum prýddan Whippet. Hund sem hefur fengið að lifa lífinu eins og sönnum Whippet sæmir.