Saluki eru tignarlegir og rólyndir hundar. Þeir eru „sighthounds“ sem þýðir að þeir koma auga á bráð og hlaupa hana uppi. Þeir eru snöggir, liprir og hafa mjög góða sjón. Þeir hafa sérstakar hreyfingar á hlaupum því allir fjórir fætur þeirra eru í loftinu á sama tíma sem gerir þeim kleift að ná miklum hraða. Þeir hafa granna líkamsbyggingu, feldurinn er frekar snöggur en síð silkimjúk hár eru á eyrum og skotti og stundum fótum. Einnig er til sjaldgæfara afbrigði af tegundinni sem kallast „smooth“ en þeir hundar hafa sneggri feld og hvergi síð hár. Höfuðið er mjótt og samhverft og mjókkar í átt að nefinu. Eyrun eru löng og lafandi. Þeir hafa stór augu sem eru annaðhvort ljós eða dökkbrún með ljúfu tignarlegu bliki. Hálsinn á Saluki er sveigjanlegur og glæsilegur. Bakið er frekar langt með skáhallandi vöðvastæltum öxlum. Fæturnir hafa þykkan feld á milli tánna til að verjast harðgerðu undirlagi.

levis6
Levis, mynd frá Stefaníu Björgvins.

Uppruni

Saluki, hinn konunglegi hundur frá Egyptalandi, gæti vel verið jafn gamall elstu siðmenningu. Þeir voru nefndir eftir fornri arabískri borg „Saluki“ í Mið-Austurlöndum, sem  nú er grafin undir sand.  Elsti útskurður sem fundist hefur líkist meira Saluki heldur en nokkurri annarri tegund. Þeir eru á skrokkinn eins og Greyhound nema með loðin eyru, skott og fætur. Skrokkar þeirra voru oft gerðir að múmíum líkt og Faraóanna sjálfra og myndir af þeim má sjá í fornum egypskum grafhýsum allt frá 2100 f.Kr. Margar líkamsleifar Saluki hafa fundist í fornum grafhýsum í efri Nílardalnum. Múslímar telja þessa tegund vera heilaga gjöf frá Allah og voru Saluki því aldrei seldir heldur einungis gefnir sem tákn um vináttu eða virðingu. Samkvæmt íslamskri menningu er oft litið á hunda sem óhreina, ritaðar heimildir sýna hinsvegar að Saluki höfðu aðra stöðu samkvæmt arabískri menningu. Í stað þess að vera taldir óhreinir sváfu þeir oft í tjaldi með eigendum sínum til að vernda þá gagnvart hita dagsins og kulda næturinnar. Saluki eru einnig  þekktir sem Gazelle Hound, Arabian Hound eða Persian Greyhound og eru, eins og útlitið gefur til kynna, mjög líklega náskyldir annarri fornri tegund,  Afghan hundinum. Þar sem ættbálkarnir í eyðimörkinni voru hirðingjar, voru Saluki þekktir allt frá Kaspíahafi að Sahara eyðimörkinni. Á þessu mjög svo dreifða svæði varð eðlilega mikill mismunur innan tegundarinnar, þá aðallega hvað varðar stærð og feld. Þar sem Saluki voru góðir veiðihundar í eyðimörkinni voru þeir notaðir til að elta uppi gasellur, þær hraðskreiðustu af antilópum. Þeir hafa einnig verið notaðir til að veiða refi, sjakala og héra.  Á Vesturlöndum hafa Saluki hundar aðallega verið gæludýr og sýningahundar, þó þeir hafi einnig náð árangri sem veðreiðahundar. Saluki hafa verið í Evrópu síðan 1840 en fáir sýndu þeim athygli þar til Florence Amherst keypti einn af arabísku Saluki hundum Prins Abdulla frá Trans-Jórdaníu og flutti til Englands árið 1895. Saluki eða Gazella Hound klúbburinn var stofnaður 1923 í Englandi. Horace N. Fisher ofursti er sagður hafa komið með fyrsta Saluki hundinn til Ameríku árið 1861. Ræktun var þó nánast engin þar til 1927 þegar ameríska hundaræktarfélagið viðurkenndi Saluki opinberlega sem tegund.  Í dag eru þessir hundar aðallega gæludýr og sýningarhundar en þeir hafa einnig keppt með góðum árangri í hinum ýmsu keppnum eins og til dæmis beituhlaupi, kappreiðum, hundafimi, hlýðniprófum og sporaleit.
Gaudi, ljósmyndari Davíð Smári Jónatansson
Gaudi, ljósmyndari Davíð Smári Jónatansson

Skapgerð

Saluki hafa jafnaðargeð og eru næmir hundar. Þeir eru ljúfir og góðir en þeir sýna það ekki alltaf. Þeir geta orðið háðir einni manneskju. Þeim semur yfirleitt vel við börn og eiga það til að vera dálítið verndandi. Þeir hafa oft þörf fyrir ró og næði í einrúmi til að hvíla sig og verða eigendur að virða það. Saluki eru vinalegir og viðkvæmir en geta verið fjarrænir og þá sérstaklega við ókunnuga. Þeir eru frekar undirgefnir að eðlisfari gagnvart fólki og hundum og stundum annars hugar. Þeir eru þægilegir og rólegir félagar og oft góðir varðhundar. Þrátt fyrir að vera ekki ágengir við fólk þá er náttúrulegt eðli þeirra að elta og drepa lítil dýr. Veiðihvötin er mjög sterk og er mikilvægt að eigandi reyni að ná tökum strax á þessu rótgróna veiðieðli í tegundinni.
Míra, ljósmyndari Davíð Smári Jónatansson
Míra, ljósmyndari Davíð Smári Jónatansson

Feldur og litur

Tvö feldafbrigði finnast innan tegundarinnar,  snögghært og síðhært. Snögghærðir hafa stuttan feld yfir allan skrokkinn en síðhærðir hafa löng hár á eyrum, aftan á fótum, á tánum og á skotti. Feldurinn innan síðhærða afbrigðisins er mjög breytilegur og hundarnir mis loðnir og á ekki að dæma þá út frá því á hundasýningum. Bæði feldafbrigðin eru jafn ákjósanleg. Allir litir eru leyfðir.

Hæð og þyngd

Hæð ætti að vera á bilinu 58-71 cm og þeir ættu að vera í kringum 13-30 kg.

Míra og Gaudi, ljósmyndari Davíð Smári Jónatansson
Míra og Gaudi, ljósmyndari Davíð Smári Jónatansson

Umhirða

Yfirleitt er ekki mikil hundalykt af Saluki samanborið við margar aðrar tegundir. Þeir eru þrifalegir og auðvelt er að snyrta feldinn á þeim. Bursta/greiða þarf feldinn öðru hvoru, sérstaklega á þeim stöðum þar sem lengri hár eru eins og á eyrum og skotti. Skoða þarf eyrun reglulega til að ganga úr skugga um að þau séu hrein og klær klipptar eftir þörfum. Saluki fer örlítið úr hárum allt árið um kring. Tegundin er almennt frekar hraust en sumar línur eru með ættlæga galla, eins og til dæmis hjarta- og sjálfsofnæmis sjúkdóma. Hafa skal í huga að Saluki hafa litla líkamsfitu svo þeir eru mjög næmir fyrir svæfingu og annarri deyfingu. Þeir lifa nokkuð lengi eða að meðaltali um 12-13 ár.

levis3
Levis við beituhlaup, ljósmynd Stefanía Björgvins.

Hreyfing

Ekki er mælt með að Saluki búi í litlum íbúðum en þeir geta aðlagast svo lengi sem þeir fá reglulega hreyfingu. Þeir eru hljóðlátir innandyra og gelta yfirleitt ekki nema ástæða sé til. Saluki eru mjög hraustir, orkumiklir og hafa mikla hreyfiþörf. Þeir þurfa að fá útrás fyrir þessari orku svo röskir göngutúrar daglega eða lausahlaup eru þeim mikilvæg. Séu þeir lausir í garði gætu þeir þurft háa girðingu vegna þess að þeir stökkva auðveldlega mjög hátt. Þeim líður best þegar þeir eru á hlaupum en hinsvegar týnast margir eða lenda í slysum þegar þeim er sleppt lausum. Það er mjög mismunandi hversu sjálfstæðir þeir eru og sumum ætti einungis að sleppa á afskekktum svæðum undir eftirliti. Saluki geta hlaupið á um 55-60 km/klst eða meira og snerta fætur þeirra vart jörðina. Þessum hámarkshraða er náð með stuttum sprettum en þeir hafa einnig mikið úthald.

Míra, ljósmyndari Davíð Smári Jónatansson
Míra, ljósmyndari Davíð Smári Jónatansson

Þjálfun

Saluki eigandi ætti að vera yfirvegaður leiðtogi sem er ekki að leita sér að ofur félagslyndum hundi, mun frekar hundi sem er tilbúinn að kúra í sófanum eftir gott hlaup. Saluki hundar geta litið út fyrir að vera fálátir og fjarlægir en þeir eiga auðvelt með að læra ef þeir vilja. Þeir verða leiðir á endurtekningum og því ætti þjálfun að vera stutt og fjölbreytt. Þeir eru tilfinninganæmir og skynsamir og ættu því aldrei að vera þjálfaðir með valdi eða harðri hendi heldur af nærgætni og með ró en þó af ákveðni. Umhverfisþjálfun strax frá unga aldri er mjög mikilvæg fyrir Saluki til að koma í veg fyrir feimni og draga úr fjarrænu og tortryggnu eðli þeirra.