Rakkinn Vestri í eigu Valdísar Vignisdóttir
Rakkinn Vestri í eigu Valdísar Vignisdóttir


Uppruni

Afghan hound er ein af elstu hundategundum í heiminum. Eins og með svo margar tegundir eru til nokkrar kenningar um uppruna hans. Sögur segja að Afghaninn hafi verið hinn útvaldi af hundategundum til að fara í örkina hans Nóa. Fornleifafræðingar áætla að Afghan hundurinn hafi verið til fyrir allt að 7000 árum síðan. Sumir telja að Saluki hundurinn hafi verið tekinn frá Sýrlandi til Afghanistan þar sem hann hafi aðlagast aðstæðum bæði á fjöllum og í eyðimörkinni og breyst og þróast samkvæmt því.

Nútíma Afghan hins vestræna heims kemur frá Afghanistan en þar voru til tvö tegundarafbrigði, eyðimerkurafbrigðið og fjallaafbrigðið en munurinn á þeim fólst aðeins í feldgerð. Eyðimerkurafbrigðið var með mun styttri og þynnri feld en fjallaafbrigðið með langan og þykkan feld. Þeir veiddu alls kyns dýr, t.d. kanínur, antilópur, dádýr og stundum jafnvel snæhlébarða! Þeir veiddu bæði tveir og tveir saman og í samvinnu við mennina. Stundum voru þeir látnir gæta kinda og smala.

Nú sem áður er Afghaninn notaður sem veiðihundur í Afghanistan. Hann er orðinn mjög vinsæll meðal hundaáhugafólks um allan heim og er oft fjölmennur á hundasýningum. Margir þjálfa hundana sína í veðhlaupum “track racing” og beituhlaupi “lure coursing” og keppa í þessum greinum enda Afghaninn afar hraðskreið tegund.

Oftar en ekki lendir tegundin neðarlega á listum yfir gáfuðustu tegundir heims en allir eigendur þessara hunda eru sammála um það að tegundin er bráðgáfuð! Afghaninn hlýðir oft bara þegar honum hentar og ef hann er viss um að hann græði eitthvað á því sem hann er beðinn um að gera. Samt sem áður eru margir eigendur þessara hunda sem þjálfa þá í hlýðni og þá oft með góðum árangri.

Vestri
Vestri

Skapgerð
Afghan-hvolpar eru oft mjög fyrirferðarmiklir og uppátækjasamir. Með aldrinum róast þeir þó yfirleitt og eru góðir fjölskylduhundar og þægilegir í umgengni. Á heimilinu fer ekki mikið fyrir þeim og eru þeir oftar en ekki algjör sófadýr! Ef þeim hins vegar leiðist, geta þeir tekið upp á ýmsu til að fá athygli, og þá er eins gott að hafa varann á.

 

Rakkinn Sesar með eiganda sínum Ásdísi Höllu Einarsdóttur. Ljósmyndari Bragi Kort
Rakkinn Sesar með eiganda sínum Ásdísi Höllu Einarsdóttur. Ljósmyndari Bragi Kort

Útlit

Afghan hound er oft kallaður konungur eða aristókrati hundanna enda einstaklega tignarleg tegund og í flestum lýsingum sem finna má um þessa einstöku tegund er talað um að afghaninn horfi “at and through you” eða á og í gegnum þig. Augu þessara hunda eru sérstök en þau eru þríhyrningslaga með austurlensku yfirbragði. Tegundin er þekkt fyrir sínar sérstöku hreyfingar og tignarlegan höfuðburð en þegar Afghaninn hreyfir sig með fjaðrandi hreyfingum er eins og hann hlaupi á skýi. Skottið er beint, reist á hreyfingu, með litlum hring á endanum.

Feldurinn er eitt helsta tegundareinkenni þessara hunda. Feldurinn er stuttur á hálsi, andliti og eftir bakinu en það svæði er kallað söðull. Annars staðar er feldurinn langur og silkikenndur. Allir litir eru leyfilegir. Tegundin tilheyrir tegundahópi 10.

580791_10151007857257870_3430736_n

Heilsufar
Arfgengir sjúkdómar eru ekki algengir í tegundinni.

Vestri
Vestri

Umhirða

Afghaninn þarfnast mikillar feldhirðu. Vikulegt bað og blástur er nauðsynlegt sem og burstun þegar þörf er á. Feldurinn getur verið erfiður á þeim tíma sem hundurinn skiptir úr hvolpafeld yfir í fullorðinsfeld og flækist oft auðveldlega. Stundum vaxa löng hár á svæðum þar sem hárin eiga að vera stutt og þá þarf að reyta þau hár burt.
178703_10151007862387870_1711926300_o

Hreyfing

Afghaninn þarf daglega hreyfingu í um klukkustund í senn. Þeim finnst mjög gaman að hlaupa lausir á opnum svæðum en gæta þarf þess að hafa þá undir góðri stjórn. Ef Afghan sér kanínu eða annað smádýr hlaupa, þá hleypur hann á eftir því þar til hann nær því, enda er veiðihvötin mjög sterk í þessum hundum!

vestri2

Afgan á Íslandi

Fyrsti Afghaninn, rakkinn C.I.B. ISCH Summerstorm´s Bad To The Bone “Ómar”, kom til Íslands árið 2002 frá Svíþjóð. Árið 2005 kom svo fyrsta tíkin til landsins frá Finnlandi, C.I.B. ISCH Punapaulan Yasmin “Chelsea”. Í ársbyrjun 2006 kom svo tíkin Xciting Stop´n Stare “Chanel” frá Svíþjóð. Þá kom rakkinn C.I.B. FIN CH DK CH ISCH NORD CH Punapaulan Oleksi “Ollie” frá Finnlandi. Smám saman hefur svo fjölgað í stofninum á Íslandi og hafa hundar aðallega verið fluttir inn frá Skandinavíu, Spáni og Bandaríkjunum. Hingað til hefur tegundinni gengið mjög vel á sýningum HRFÍ.