Red Dachshund Long-haired on a green grass lawn
Red Dachshund Long-haired on a green grass lawn

Uppruni

Langhundurinn sem á uppruna sinn í Þýskalandi hefur verið einn ástsælasti heimilishundur í Skandinavíu í áratugi. Langhundurinn á uppruna sinn í Þýskalandi og kallast þar og á ensku Dachshund en þekkist í norðurlöndunum sem Gravhund. Þekktustu einstaklingar innan langhundategundarinnar eru þeir sem Margréti Danadrottning og Henrik Prins eiga.

Tegundin var í upphafi ræktuð með tilliti til veiða á greifingjum, ref og kanínum. Strýhærði standardinn er talin best í refaveiðarnar þar sem hann er öflugur smáhundur. Aftur á móti þá er dvergstærðin sú eina sem kemst ofaní kanínuholurnar. Af þessum ástæðum hefur tegundin svo fjölbreytta stærð (Dansk kennel klub, 2000).

Í dag er langhundur ræktaður bæði sem veiði- og fjölskylduhundur. Útbreiddur misskilningur virðist vera um veiðihunda, að þeir eigi að drepa bráð sína. Ekki er svo meðal langhundarins, hann á að finna greni greifingjans, refsins/minksins, fæla hann úr því og við tekur svo lagni skotveiðimannsins að drepa bráð sína (Munnleg heimild Birthe Paaske, 2007).

 

Persónueinkenni

Helstu persónueinkenni langhundsins eru þau að hann er afar glaðlyndur hundur, sjálfstæður, sniðugur og á stundum útsmoginn. Hann notar óspart sjarmann sinn til að geta snúið sér útúr hverjum þeim vanda sem hann hefur óvænt komið sér í.

Langhundurinn er velgefinn og hefur gaman af öllum áskorunum. Langhundur er mjög vinsæll sem fjölskyldu- og veiðihundur um alla Evrópu.

Mikilvægt er fyrir þá sem velja að fá sér langhund að gera sér grein fyrir hinni miklu gleði sem býr í tegundinni. Einnig er það nauðsynlegt fyrir eigendur langhunda að láta ríkja gangkvæma virðingu og vinskap á milli manns og hunds.

Margur er knár þótt hann sé smár og þannig upplifir langhundurinn sig og er honum í blóð borið varðhundaeðli. En hann lætur ávalt eigandann sinn vita ef gesti ber að garði.

dachshund chocolate puppy and red dog dachshund

Útlit

Til eru 9 afbrigði af langhundategundinni, þrjár stærðir, þrír litir og svo þrjú feldafbrigði. En öll þessi afbrigði eru með sama persónuleikanum er einkennir langhundinn, frískur og kátur.

Stærðirnar eru á íslensku kallaðar standard/venjuleg-, dverg og kanin/rabbitstærð. Í Evrópu flokkast langhundar sem standard/venjuleg-, dverg- og míni/rabbitstærð.

Standard/venjuleg stærð er yfir 35cm í brjóstmál. Rabbit/kanínstærð (dvergur í Evrópu) er á milli 35 – 30cm í brjóstmál og svo er dvergstærðin (míni/kanínstærð í Evrópu) allt sem er undir 30cm í brjóstmál. Brjóstmálið er mælt með málbandi þar sem brjóstið er dýpst (Dansk kennel klub, 2000).

Grunnlitir innan tegundarinnar eru rauður, svartur og svo yrjóttur. Auðvitað eru svo afbrigði innan litanna einsog rauður með svört yfirhár, svartur með ljósar fætur, bringu og á trýni. Yrjóttir geta verið allavega á litinn rauðir sem og svartir (Dansk kennelklub, 2000).

Hárgerðirnar eru þrjár, strýhærður, snögghærður og síðhærður. Strýhærða langhundinum er stundum ruglað saman við hunda af terrierkyni. Strýhærðir hundar eiga að hafa augabrúnir og skegg og það þarf að reyta pelsinn reglulega.

Snögghærðir langhundar eru einsog nafnið gefur til kynna snögghærðir og er umhirðan á feldinum lítil sem engin (Dansk kennelklub, 2000).

Síðhærðir langundar hafa töluvert meiri feld en hinir ofantöldu. Þeir eru með löng hár á eyrum, bringan er vel loðin, fætur og kviður einnig. Oft hefur verið sagt með síðhærðu langhundana að þeir séu síðri til veiða, en ekkert er sannað í þeim efnum. Það sem getur valdið þessum sögusögnum er það hversu fallegur feldur þeirra er. En láttu ekki blekkjast því sama hvernig hártýpu langhundurinn þinn er með þá er hann að öllum líkindum með sama eldmóðinn einsog allir aðrir langhundar, kraftmikill og kátur og til í ævintýri sé honum boðið með.

 

Heilbrigði

Langhundur er í flestum tilfellum afar heilbrigður hundur. Hann verður oftast um kring 12 – 14 ára gamall svo það er ekki tjaldað til einnar nætur þegar þessi litli vinur kemur heim inná heimilið.

Þegar maður fær sér Langhund er gott að byrja á því að athuga hvort hundurinn sé viðurkenndur innan HRFÍ. Mikilvægi þessa er vegna heilbrigði hvolpanna en allir íslenskir HRFÍ ræktendur verða að láta augnskoða hundana sína. Þetta er gert til að hindra að í ræktun séu hundar með augngalla, það getur verið kostnaðarsamt fyrir eigandann og er sársaukafullt fyrir skepnuna.

Inna Evrópu er allir viðurkenndir undaneldis hundar einnig skikkaðir í röntgenmyndatökur til að sjá hvort þeir hafi brjósklosveikleika. Þetta er ekki krafa hér á landi enn sem komið er. En HRFÍ langhundar hérlendis eru allir undan foreldrum sem eru viðurkenndir samkvæmt Evrópskum kröfum. Í Evrópu er það einungis topp hundarnir sem eru án nokkurra ræktunargalla sem má rækta undan. Þess vegna getur kaupandi sem kaupir hund af viðurkenndum HRFÍ aðila verið viss um að verið sé að rækta sem heilbrigðasta hunda og kostur er.

Gott er fyrir kaupendur/ræktendur langhunda að kynna sér forsögu foreldra hundanna sinna og sé hundurinn frá viðurkenndum hundaræktunaraðila innan HRFÍ er hægt að flétta uppá foreldrum hundanna og sjá t.d sýningar, augnskoðanir og m.fl.

 

Langhundurinn í leik og starfi

Sagt er að 10 hver hundur í Danmörku sé langhundur og að hann sé ekki nein tískubóla. Þessi tegund hefur átt við stöðugar vinsældir að fagna í áratugi og ekkert lát virðist vera á vinsældum tegundarinnar á norðurlöndunum.

Á Íslandi er tegundin lítt kynnt og ræktun hennar á frumstigi. Mikilvægt er að kynna tegundina rétt og að þeir sem hugi að því að eignast langhund viti vel hvernig hund þeir eru að fá sér. Því sagt er að þessi tegund fari í erfðir, að þau börn sem alin eru upp með langhundum fái sér langhund (Dansk Kennel Klub, 2000).

Langhundar eru skemmtilegir leikfélagar, í flestum tilfellum eru þeir barnelskir en vilja ávalt að leikfélagi þeirra virði þá einsog þeir virða leikfélagann sinn. Ef langhundinum er ofboðið í leik við barnið segir hann frá oftast með því að skríða undir sófa, aðvara með snöggu gelti/urri eða skríða í öruggt skjól fullorðinna. Mikilvægt er að þeir sem ákveða að eiga hund og barn á sama tíma geri sér grein fyrir því að hundurinn sé ekki leikfang barnsins og svo öfugt. Sé ekki gagnkvæm virðing til staðar getur farið illa og það er engum óskandi.

Mikilvægt er að temja og hemja hundinn sinn, en ekki brjóta niður stolt og sjálfstæðið hans (Dansk Kennel Klub, 2000) .

 

Að lokum

Langhundurinn elskar ævintýri og vill taka þátt í öllu því sem fjölskyldan tekur sér fyrir hendur. Þar sem stærð hundsins er svo þægileg getur verið gott að smella vininum niður í bakpoka og þá er hann klár í slaginn. Myndin hér til hliðar er af höfundi, en ég var við störf sem landvörður sumarið 2008 í þjóðgarði Snæfellsjökuls. Ég hafði tíkina mína með í vinnuna. Og þegar færi gafst þá var hún í bakpokanum mínum á meðan ég fór í eftirlitsferðir um hinn margrómaða Snæfellsjökulþjóðgarð.

Ég hvet alla sem eiga langhunda að taka þá með í ævintýri fjölskyldunnar í sumar. Munið eftir hundapokunum fyrir hunda humm, hummið og að hafa hundana í snúru. Sýnum tillitssemi hvort við annað og verum saman.