Uppruni

Margar getgátur eru um hvernig uppruni Aussie er, en tegundin eins og við þekkjum hana í dag þróaðist í Bandaríkjunum. Ættir Aussie eru þó raktar til Baskahéraða Frakklands og Spánar, en var kallaður Ástralskur fjárhundur vegna þess að þeir fylgdu fjárhirðum sem komu til Ameríku frá Ástralíu í kringum árið 1800. Í Ameríku hafa þeir svo þróast yfir í þá tegund sem þeir eru í dag.

Önnur nöfn sem tegundin hefur gengist undir, þó Ástralskur fjárhundur (e. Australian Shepherd) sé viðurkennt nafn.

  • Spanish Shepherd
  • Pastor Dog
  • Bob-Tail (Tilvísun í skottleysi þeirra)
  • Blue Heeler
  • New Mexican Shepherd
  • California Shepherd
RW 14 ISCH Thornapple Seduction "Reese"
RW 14 ISCH Thornapple Seduction “Reese”

Tegundalýsing

Aussie er greindur vinnuhundur með sterkt smala- og varðeðli. Hann er tryggur félagi með þol til þess að vinna allan daginn.

Byggingarlag Aussie er þannig að lengd á búk skal vera örlítið lengri en hæð á herðakamb. Höfuðkúpa er svipuð að lengd og trýni hundsins, augu aussie eru möndlulaga með blíðan svip en viðurkenndir augnlitir eru brúnn, blár, amber eða blanda af þessum litum af öllu tagi. Háls skal vera í meðallagi og bakið á að vera beint og kröftugt frá herðablöðum að mjaðmaliðum.

Fjölbreytileiki er í lengd á skotti á aussie hundum, en þeir geta fæðst skottlausir, með dindil, hálfskott og svo heilskott. Í upprunalandinu Ameríku eru flestir hundar skottstífðir, en slíkt er ekki leyfilegt hérlendis. Fætur skulu vera sterkir og einkennast af sterkum beinum, möndlulaga í laginu frekar en hringlótt. Hreyfingarnar eiga að vera fjálslegar sýnum, mjúkar og auðveldar fyrir hundinn. Skal vera sjáanlegur munur á rakka og tík.

Æskileg hæð rakka er 51-58 cm og tíkurnar  46-53 cm – en ekki á að fórna gæðum fyrir hæð.

Feldur:

Aussie hefur óvenjulega og fjölbreytta liti, hver hundur með einstakt feldmynstur. Feldurinn getur verið bæði sléttur og liðaður, vatnsheldur og af miðlungs lengd. Aussie hefur tvöfaldan feld en undirfeldurinn ræðst af mestu af búsetu hans (heitt eða kalt veðurfar). Feldur er stuttur og mjúkur á höfði, eyrum, framan á framfótum og á hæklum.

Litaafbrigði í Aussie eru bláyrjótt, svart, rauðyrjótt og rautt – allir litir með eða án hvítu og tani. Séu hundarnir með hvítan kraga má hvíti liturinn ekki ná aftur fyrir herðablöð (við rót). Hvíti liturinn ma vera á hálsi, annaðhvort í heilum kraga eða aðeins á hluta hans, á bringu, fótum, undir trýni, sem blesa á höfði og má hvíti liturinn ekki ná meira en 10cm upp fyrir olnboga sé mælt lárétt frá honum. Hvíti liturinn á höfðinu skal ekki vera ríkjandi og eiga augun að vera umkringd lit (öðrum en hvítum) og  (e. Pigmenti). Yrjóttu hundarnir dekkjast yfirleitt með aldrinum.

Nánari lýsingu á útliti tegundarinnar má lesa hér: http://fci.be/Nomenclature/Standards/342g01-en.pdf

Östra Greda Guccio Gucci, fæddur 21.05.2014
Östra Greda Guccio Gucci, fæddur 21.05.2014

Vinnulýsing

Ástralskur fjárhundur er flokkaður sem “loose-eyed” fjár og hjarðhundur, sem þýðir að hundurinn notar augað bara þegar hann þarf þess. Hann er öruggur, lipur og vinnur nálægt búfénu sem hann smalar. Aussie er hægt að nota til þess að smala hinum ýmsu dýrum stórum sem smáum.

Smalaeiginleiki tegundarinnar einkennist af því að hann rekur búféð áfram og heldur þeim í hóp og notar til þess hægri-vinstri aðferð þar sem hann skiptir um áttir á örstundu. Þeir nota geltið sér til stuðnings ef þess þarf og þarf það að einkennast af öryggi.

Þar sem um er að ræða fjárhund með mikið smalaeðli getur freistingin verið erfið og þeir smalað öðrum dýrum á heimilinu og jafnvel börnum. Mikilvægt er að fylgjast með slíkri hegðun og leiðrétta með því að veita hundinum önnur verkefni.

 frá vinstri sólskinsgeisla bláa þruman, silfurbergs Gríma og Silfurbergs Kvika
frá vinstri sólskinsgeisla bláa þruman, silfurbergs Gríma og Silfurbergs Kvika

Persónuleiki og skapgerð

Þeir sem eiga ástralskan fjárhund geta yfirleitt ekki hugsað sér neina aðra tegund og talað er um að eigendur þeirra eigi erfitt með að eiga bara einn. Þar með er þó ekki átt við að tegundin henti öllum eða eigi að búa inni á öllum heimilum.

Aussie er kraftmikill og greindur hundur sem getur orðið mjög háður eiganda sínum. Aussie er yfirleitt mjög einlægur og blíður. Sumir Aussie eru vinalegri við alla, en tegundin er hinsvegar oft gjörn á að vera hlédræg og vör um sig við ókunnuga. Slíkir hundar þurfa jákvæða upplifun af fólki án þvingunar. Aussie hefur mjög gjarnan ríkt varðeðli og tekur oft að sér það hlutverk að passa fjölskyldu og heimili sem bæði getur verið jákvætt og neikvætt. Eins og með alla hunda er afar mikilvægt að umhverfisþjálfa Aussie. Almennt hentar tegundin vel með öðrum hundum og dýrum og eru þeir yfirleitt mjög barngóðir – en hafa þarf í huga smalaeðlið.

Almenn hlýðniþjálfun er nauðsynleg fyrir alla hunda og eigendur. Ástralski fjárhundurinn er samvinnufús og áhugasamur að læra og því getur öll þjálfun verið mjög skemmtileg fyrir bæði hund og eiganda. Jákvæðar þjálfunaraðferðir virka vel fyrir flesta hunda, óþarfi er að beita tegundina ofríki eða vera harkalegur vegna skapgerðar hennar.

Frá vinstri: Misty, Chase, Izzy, Reese, Marley
Frá vinstri: Misty, Chase, Izzy, Reese, Marley

Umhirða

Aussie er orkumikil tegund með mikið smala og varðeðli, Aussie þarfnast daglegrar hreyfingar. Þrátt fyrir að sumir hundar séu hlédrægir við ókunnuga þráir Aussie ekkert meira heldur en að vera nálægt fjölskyldu sinni.

Reglulegt bað er nauðsynlegt til að halda feldinum hreinum og lausum við flóka. Gott er að bursta hundinn lágmark vikulega með góðum bursta (slicker eða pinnabursta t.d.). Neglur þarf að klippa reglulega. Fylgjast þarf með eyrum og tönnum eins og á öllum  öðrum tegundum.

Vinnueðli Aussie getur orðið sumum um of, þeir eru ofboðslega greindir og eru vel færir um að vera búnir að úthugsa grunlausan eiganda sinn. Aussie hentar því ekki öllum, en hentar einstaklega vel þeim sem leita af gáfuðum hundi sem er auðþjálfanlegur og frábær félagi. Aussie hefur m.a. verið notaður sem leitar- og björgunarhundur.

Heilsa Aussie er heilt yfir frekar góð en eins og í öllum tegundum geta heilsufarskvillar komið upp. Mikilvægt er að fylgjast með geni í hverjum hundi sem kallað er MDR1 en jákvæð svörun við slíku geni getur valdið lífshættulegu ofnæmi við ákveðnum lyfjum sem finnast m.a. í ormalyfjum hesta auk fleiri lyfja, líf hunda með jákvæða svörun við MDR1 er þó mjög eðlilegt og gott sé þeim haldið frá þessum lyfjum.

12980545_10208229389805319_2000318877_n
silfurbergs Gríma og Silfurbergs Kvika

Áhugaverðir tenglar:

http://fci.be/Nomenclature/Standards/342g01-en.pdf  – Standard yfir Aussie frá FCI
http://asca.org/ – Heimasíða Australian Shepherd Club of America
http://www.ashgi.org/ – Australian Shepherd Health & Genetics Institute
www.hrfi.is / Heimasíða Hundaræktarfélags Íslands

 

ISCH-Vikur-Bob-Marley
ISCH-Vikur-Bob-Marley